Orðin ferköntuð og glaseyg af lestri framboðsyfirlýsinga.

Það er að æra óstöðugan, að reyna að fylgjast með tvístraðri umræðunni og kosnigabaráttu einstaklinga í framboði til þingsins góða.

Á facebook síðu Stjórnlagaþings safna frambjóðendur „like“ og eru sumir augljóslega ötulli en aðrir.Í tísku er að setja „töluna sína“ inn á myndina. (Ég reyndi en fannst þetta eins og fanganúmer).

Svo auglýsa sumir ... og aðrir ekki.

Vissulega er það ákveðin kurteisi við kjósendur að koma sínum sjónarmiðum á framfæri þeim til auðveldunar við val. Þó er úr vöndu að ráða þar sem það er ekki endilega samþykkt að vera að ota sínum tota... eða annarra er manni þykir árennilegir... svona opinberlega.

Ríkisfjölmiðlum er vandi á höndum vegna fjölda frambjóðenda þar sem hið fullkomna jafnræði þarf að ríkja. Rúv er þó búið að koma upp ágætissíðu á sínum vef og á það einnig við um aðra vefmiðla.

Á vef DV. gefst lesendum tækifæri til að svara ákveðnum spurningum með fyrirframgefnum svörum sem er takmarkandi en ágætis leiðarvísir fyrir kjósendur þar sem þeir geta þannig borið sig saman við frambjóðendur.

Sjórnarskrárfélagið hefur staðið sig með afbrigðum vel og sent frá sér efni til hlustunar auk lifandi framboðskynninga þeirra sem hafa mætt.

Í dag hlustaði ég m.a. á  fyrirlestur Þorsteins Pálssonar frá Skálholtsfundi, en var yfirskrift hans „Hvað er málið“.  Þorsteinn bendir á að fyrirkomulag þjóðfundar sé gerólíkt í eðli sínu fyrirkomulagi Alþingis.

Á alþingi ræði menn með sérstökum hætti málin ofan í kjölinn til að komast að niðurstöðu en Þjóðfundur komi fram með hinar ólíku skoðanir í heild.

Mér finnst persólulega alltaf gott að hlýða á mótvægi þess sem fer eins og eldur um sinu hópsálarinnar. Ég er enn þeirrar skoðunar að við verðum að stíga varlega til jarðar og láta ekki „anda dagsins“  leiða okkur á villigötur. (eins og við höfum gert... eða hvað?)

.Lögin um Stjórnlagaþing kveða á um form þingsins að mestu. Þar kemur fram að stjórnlagaþingsnefnd skuli leggja niðurstöður þjóðfundar fyrir þingið. Skipa skal forseta þings og formenn nefnda eftir sérstökum reglum ásamt því að ráða til sérfræðinga.

Enn er ég tvímælalaust þeirrar skoðunar að heillavænlegast sé að á þingið veljist breiður hópur fólks, sem kemur til starfa með opnum huga, tilbúið til að vinna eftir lýræðislegum leiðum og skapa nýtt umræðuform. 

Hvað sem segja má um nauðsyn þess að breyta stjórnarskránni nú, þá er svo komið að þingið mun taka  til starfa.

Meðframbjóðandi var óvænt ferðafélagi á heimleið frá Kaupmannahöfn í síðustu viku. Hann sér Stjórnlagaþing sem ljósið í myrkrinu.

Ég er sammála honum að því leyti, að takist með þessu að ná frið og sátt til framtíðar er verkefnið þess virði.

Eyjafjörður í gegnum birkilauf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband