21.3.2007 | 16:05
Kofi Annam á konurassi.
Í október sl., varð ég þess heiðurs aðnjótandi að fá að taka þátt í Heimsþingi kvenna, sem haldið var í Ljubljana í Slóveníu. Við vorum fimm héðan sem tókum þátt, en þingið er árlegur viðburður og gert út af FCEM, sem eru Alþjóðasamtök kvenna í atvinnurekstri (Eða, "The worldwide network of women business owners"). því er skemmst frá að segja, að þetta var ævintýri hið mesta fyrir mig, enda í fyrsta sinn sem ég tek þátt í starfi á alþjóðavettvangi með svo áhrifamiklum konum. En það eru þær.
Þarna voru sem sé samankomnar konur alls staðar að úr heiminum, til að sýna sig og sjá aðrar.Fræðast og hleypa kappi í kinn... Það var mjög ánægjulegt að sannreyna að þarna fara samtök kvenna með mikinn metnað. Yfirskrift ráðstefunnar var "The future belongs to the Enterprising" Skyldi það satt reynast?
Við vorum nú ekki keyrðar um í Limosinum, en augljóst var að þinginu hafði verið gert hátt undir höfði í borginni, en formaður samtakanna í Slóveníu, Marta Turk sá um alla skipulagningu. þar sem hún situr einnig í borgaráði Ljubljana, þá hefur hún augljólega viljað gera atburði þessum hátt undir höfði fyrir borgina.
Hver Galadinnerinn rak annan eftir þingsetur, kynningar og fræðsluerindi. Í einum þeirra ákváðum við, þær íslensku, að hætta að hanga hver utan í annarri og skipta okkur á borðin. Ég settist til borðs með hópi afrískra kvenna. Þær voru allar stórar og stæltar. Þær töluðu litla ensku og ég litla frönsku. Þó leið okkur vel saman og fundum fljótt út að við voru allar bara "usual girls". Yfir matnum duttu þær í hrífandi samtal og töluðu í kross og kór á frönsku. Ég hætti að reyna að fylgjast með og borðaði matinn þegjandi. Þegar kom hlé á þessum hraðvirku samræðum vogaði ég mér að spyrjast fyrir um umræðuefnið. Jú það voru forsetakosningarnar í þeirra landi á næstunni Cameroon, eða Chad ... Þær voru orðnar sammála um að það væri sama hver myndi vinna. Það gilti einu að ófriður yrði í landinu.
Daginn eftir urðum við samferða fyrir tilviljun í lítilli rútu heim af sýningunni. Aðeins ég og svo þær, auk bílstjórans frá Ljubljana. Ég hafði tekið eftir því að mikið var býsnast yfir þessum Afrísku konum þær væru svo fyrirferðamiklar og sjálfstæðar gerðu bara það sem þeim sýndist... Ja tja. Ég hafði keypt af þeim sandala sem ég skartaði og armband með furðulegum tönnum á. Þær flissuðu mikið yfir þessu og sögðu að armbandið myndi færa mér lukku. Ég spurði þær um Afríku, en þær fóru í vörn. "What you don´t like Africa"? þetta svar kom í opna skjöldu. Jú vissulega, ég hef aldrei komið til Afríku en finnst það mjög heillandi tilhugsun. Hvers vegna skyldu þessar Afrísku konur hafa minnimáttarkennd fyrir landi sínu og þjóð? Ég er enn að pæla.
Það þótti mikill heiður fyrir Afríku að fá Francois Foning kosna sem forseta FCEM. Enda konan stór yst sem innst. Það var augljóst að hún bar hag Afríku og afrískra kvenna mjög fyrir brjósti. Hún er góð vinkona Kofi Annams og það hlýtur að vera fengur af slíkum vin. Enda hafa afríkar konur sýnt honum svart á hvítu sína virðinug með því að láta vefa efni með mynd af honum og svo sauma þær kjóla úr því.
Francois Foning vill heiður Afríku sem mestan og konurnar þrá að vera séðar og heyrðar.
Við viljum heiður Evrópu sem mestan og finnst Evrópa gleymd.
Hvernig endar þetta allt saman...
Á flugvellinum á leiðinni heim, hitti ég aftur þessar Afrísku vinkonur mínar. þær voru á leiðinni til Parísar og svo þaðan til CHAD. Allt í einu fannst mér Afríka svo nálægt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.