4.4.2007 | 15:35
Ef stendur í hverri lögbók.
Vinnufélagi rétti mér páskaegg í gær og málshátturinn var þessi: -Ef stendur í hverri lögbók. -Ég sagðist ekki skilja málsháttinn og yrði að fá annað egg. Asnalegir þessir málshættir í dag og allt öðruvísi páskar. *
Við systurnar erum hrikalega vel upp aldar. Þegar við vorum litlar þá beið okkar á páskadagsmorgunn, við hliðina á rúminu eftirfarnadi: Þrjú páskaegg, handklæði, appelsína og borðhnífur. Þetta var ófrávíkjanleg regla. Við máttum byrja á súkkulaðinu en helst áttum við að borða appelsínuna fyrst. Heimilið breyttist í gult hreiður, með skreyttum greinum, páskadúkum , gardínum og serívéttum.
Ég man varla eftir því að hafa haft mig í að setja upp nema rétt svo eina grein síðan ég hóf sjálfstæðan búrekstur. Móðir mín er afar íhaldssöm og föst á gamlar hefðir. Maður er rétt að komast yfir þetta á fimmtugsaldri að finnast ekki allt misheppnað ef það er ekki skv. ritúalinu... hennar mömmu.
Annars held ég að hefðirnar og ritúölin hafi ekkert gert okkur nema gott. Skapað öryggi og aðhald. Ég á ekki samsetta fjöl... fjöl... fjölskyldu. Ég held mig myndi að vissu leyti óa við því að lifa svo flóknu fjölskyldumynstri eins og margir gera ,en þá gætu hefða-ritúal örugglega komið að gagni.
Ætla út úr bænum um helgina, en best að kaupa þá þessar páskaliljur fyrst og vonast til að fá skiljanlegan málshátt í næsta páskaeggi.
Gleðilega hátið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.