16.10.2007 | 10:12
Þjóðin er eins og Ragnar Reykás.
Allt í einu eru allir farnir að bugta sig og beygja fyrir útrásinni og peningamönnunum ógurlegu, sem fyrir stuttu síðan voru aðal vá hins íslenska samfélags. Í valinn fellur eldri borgari, embættismaður til tuga ára, sem hefur ekki áttað sig á hinu nýja samfélgasmynstri fremur en margir aðrir.
Um þetta bar Kastljósþáttur gærkvöldsins glöggt vitni. Spyrillinn réðst af tískulegri spurningahörku á stjórnmálamanninn, en þorði ekki í peningamanninn og bar augljóslega fyrir honum óttablandna virðingu, eins og 90% þjóðarinnar. Glitnisgæinn ungi, sem einu sinni var "auðvaldið" og var í hópi þeirra - skv. almannarómi- sem báru ábyrgð á háum vöxtum og alls konar ótilgreindu "sukki bankanna", er nú hinn íslenski gulldrengur í orkuútrásinni.
Í hinu nýja samfélagsmynstri gilda engar sérstakar reglur fyrir þá sem hafa viðskiptavitið, aðrar en að hámarka gróða , sama hvað er undir. Í gamla mynstrinu, því sem pólitíkusar hafa þurft og þurfa að fara eftir gilda reglur og guð hjálpi þeim sem verður á.
Umræðan er bæði þörf og góð, en aðgát skal höfð... þegar múgæsing tekur völdin er einhver grýttur og kannski bara sá sem best liggur við höggi í hita leiksins.
Sem forsvarsmaður REI, neyðist nú Bjarni Ármann til að gera "greinagerð" i.e. gera grein fyrir máli sínu, en það virðist vera alveg nýtt fyrir hann. Amk., sagðist hann aldrei hafa lent í því áður. Var ekki þessi umdeildi samningur á ensku kynntur fyrir fjárfestum erlendis, daginn eftir að hann var undirritaður. Þess vegna þurfti að hraða málinu. Nú er allt komið í uppnám og málið farið að skaða útrás íslenskrar orku.
Hefðu ekki allir þurft að vanda sig betur, ekki bara Vilhjálmur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.