Margir að skila í morgun.

Það var nóg að gera hjá þeim í afgreiðslunni í glerskála Alþingis í morgun. Frambjóðendur og / eða fulltrúar þeirra streymdu að með gögn. Er það vel. Gaman verður að sjá listann í heild.

Margir frambjóðendanna hafa þegar hafið "kosningabaráttuna", bæði á Facebook síðu Stjórnlagaþingsins og á eigin bloggsíðum. Baráttumálin eru af ýmsum toga. Mestur samhljómur virðist vera hvað varðar skýrari þrískiptingu valdsins og náttúruauðlindir í eign þjóðarinnar.

Önnur málefni koma til kastanna svo sem aðskilnaður ríkis og kirkju, persónukjör, kjördæmaskipan, valdsvið forseta ofl.

Þetta eru engin smá mál, nema síður sé.

Nokkuð hefur verið fjallað um það í umræðunni almennt undanfarið hve umræðuhefðin okkar hér er slök. Það væri lag að láta reyna á nýja tegund að "umræðuhefð" á Stjórnlagaþinginu og vera búin að huga að umræðuforminu í tíma.

Þjóðfundurinn sem halda á næstunni leggur grunninn fyrir Stjórnlagaþing sem er gott. Það er mikilvæg að okkur "þjóðinni" finnist þetta ekki eitt "platið" enn.

Vandasamt er að iðka lýðræðið og góða umræðuhefð þar sem slíkt krefst þolinmæði og hlustunar ásamt virðingu fyrir skoðun annarra.

Gagnrýni á óvandaða stjórnsýslu hefur verið hávær undanfarið. Brýnt er að Stjórnlagaþing sýni í verki að þar fari fólk, sem unnið getur faglega og  verið góð fyrirmynd að vönduðum og nútímalegum vinnubrögðum.  Upplýsingaflæði frá þinginu til þjóðarinnar þarf að vera virkt og aðgengilegt öllum  án vandkvæða.

Um frambjóðanda:

Ég er fædd 3.október 1959 í Reykjavík. Foreldrar eru Lovísa Ágústsdóttir fv.ritari og Valgeir Gestsson fv. skólastjóri og formaður Kennarasambands Íslands. Ég á þrjár systur, 5 yndisleg systrabörn, eina dóttur og dótturdóttir. Barnsskónum sleit ég að Varmalandi í Borgarfirði, lærði skólaljóðin og keppti í íþróttum með UMFÍ.

Síðar stundaði ég nám í sagnfræði, heimspeki og fjölmiðlafræði við H.Í. Lauk Brautargengisnámi hjá IMRPU Nýsköpunarmiðstöð árið 2000 og Frumkvöðalfræðum PDE, frá Háskólanum á Keili 2009.

Ég hef unnið fjölbreytt störf í gegnum tíðina; eldað fyrir ferðamenn á hálendi Íslands, starfað sem kennari, rekið eigð tehús í Reykjavík, en þó hefur stærstur hluti starfsævinnar snúið að ráðgjöf m.a. til unglinga hjá Reykjavíkurborg og kvenna sem leita þjónustu Kvennaathvarfsins.

Sl. vetur tók ég þátt í sjálfboðaliðastarfi með UNIFEM á Íslandi og vann með þeim í landsbyggðakynningum.

Um þessar mundir er ég að þróa eigin vöru sem unnin er að hluta til úr íslenskum jurtum.

Það Ísland sem ég ólst upp á var land friðsemdar og eðlilegrar uppbyggingar skóla- heilbrigðiskerfis, lífeyrissjóða og stéttafélaga m.a. Gildi aldamótakynslóðarinnar í gegnum afa og ömmur eru mér í blóð borin. Trú á land og lýð, virðing fyrir náttúrunni og samvistir við hana,... rabbabaragarður... skógarlundur... lækjarniður... skrúðgarðar og 17.júní....

Gildi sem ég hef erft og virði.  -  Gamalt getur líka verið gott.

 - Það er einnlæg von mín að yfir Stjórnlagaþingi ríki góður andi, jákvæðni , uppbygging , trú , traust og gleði. -

 Með skýra sýn og gott innsæi. Skipulagsfærni, vinnusemi og þjálfun í að hlusta. Virðingu fyrir uppruna okkar og sögu, ásamt  þeim góðu gildum sem við enn búum yfir, óska ég þátttöku í Stjórnlagaþingi.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband