Þjóðin er eins og Ragnar Reykás.

Allt í einu eru allir farnir að bugta sig og beygja fyrir útrásinni og peningamönnunum ógurlegu, sem fyrir stuttu síðan voru aðal vá hins íslenska samfélags. Í valinn fellur eldri borgari, embættismaður til tuga ára, sem hefur ekki áttað sig á hinu nýja samfélgasmynstri fremur en margir aðrir.

Um þetta bar Kastljósþáttur gærkvöldsins glöggt vitni. Spyrillinn réðst af tískulegri spurningahörku á stjórnmálamanninn, en þorði ekki í peningamanninn og bar augljóslega fyrir honum óttablandna virðingu, eins og 90% þjóðarinnar. Glitnisgæinn ungi, sem einu sinni var "auðvaldið" og var í hópi þeirra - skv. almannarómi- sem báru ábyrgð á háum vöxtum og alls konar ótilgreindu "sukki bankanna", er nú hinn íslenski gulldrengur í orkuútrásinni.

Í hinu nýja samfélagsmynstri gilda engar sérstakar reglur fyrir þá sem hafa viðskiptavitið, aðrar en að hámarka gróða , sama hvað er undir. Í gamla mynstrinu, því sem pólitíkusar hafa þurft og þurfa að fara eftir gilda reglur og guð hjálpi þeim sem verður á.

Umræðan er bæði þörf og góð, en aðgát skal höfð... þegar múgæsing tekur völdin er einhver grýttur  og kannski bara sá sem best liggur við höggi í hita leiksins.

Sem forsvarsmaður REI, neyðist nú Bjarni Ármann til að gera "greinagerð" i.e. gera grein fyrir máli sínu, en það virðist vera alveg nýtt fyrir hann. Amk., sagðist hann aldrei hafa lent í því áður. Var ekki þessi umdeildi samningur á ensku kynntur fyrir fjárfestum erlendis, daginn eftir að hann var undirritaður. Þess vegna þurfti að hraða málinu. Nú er allt komið í uppnám og málið farið að skaða útrás íslenskrar orku.

Hefðu ekki allir þurft að vanda sig betur, ekki bara Vilhjálmur.


"Læknir án landamæra" - "hægri,tvist,snú...

"Hvað er þetta með þennan mann þarna, þennan lækni. Ætti hann ekki bara að fara vinna sem "Læknir án landamæra" og snúa sér að því sem hann er menntaður til. Hvað er þetta eiginlega." Var hið dásamlega "comic reliev" móður minnar í háalvarlegri og dramatískri umræðu sl. daga. Loksins gat maður hlegið.

Ég held að að sé ekkert ofsögum sagt að margir óbreyttir borgarar hafi raunverulega fundið til, sem áhorfendur að þessum hildarleik öllum. Mér fannst fjölmiðlar ekki geta rönd við reyst heldur og vera jafn ráðvilltir og allir aðrir. Óskaði þess á einhverjum tímapunkti að þeir tækju sig til og reyndu að róa ástandið frekar en taka á ruglingslegan hátt þátt í múgæsingnum. Fannst þó Katljós standa sig betur en Ísland í dag.

Pabbi sagði strax í upphafi að þarna væru að takast á peningaöflin í landinu og ekkert annað. Hér væru á ferð átök milli hins nýkrýnda Kolkrabba og hins gamla og fallna Kolkrabba. Honum fannst undarlegt að Júlíus Vífill skyldi vilja selja hlut OR, en taldi víst að þar væru kaupendur einstaklingar sem tilheyrðu gamla kolkrabbaveldinu. Nú kemur í ljós að Sjálfstæðismenn telja að Björn Ingi sé að verja hagsmuni eiganda hlutafjár í nýju samsteypunni, sem tengist Framsóknarflokknum.

Hvar er Agnes Bragadóttir. Getur hún ekki farið að kafa í þetta?

Ég mun sakna þess að fá ekki að fylgjast með hinu geðþekka unga fólki sem fyllti meirihluta borgarstjórnar Sjálfstæðisflokksins. Mér fannst þau öll bera af sér góðan þokka í hvívetna með gott og jákvætt yfirbragð og alls ekkert slæmar hugmyndir.

Nú hefst sem sé aftur tímabil togarasjómennskuandans með uppbrettar ermar og allt það. Svandís mun samt hugsanlega falla frá málsókn sinni og eftir allt saman er allt breytt en samt óbreytt.

What´s the point?

 

 

 


Tökum Villa í sátt. - semjum frið.

Það er óþarfi að taka borgarstjóra af lífi, þrátt fyrir ákveðin mistök. Þegar ofsóknirnar fara að verða of grimmilegar missa þær marks. Það er líka ósmekklegt að horfa á andstæðingana baða sig of lengi í vinsældarljósi vegna sinna sterku viðbragða við gerðum annarra.

Við sem erum friðelskandi fólk og sannanlega á móti óeirðum og stríði hvers konar, verðum þá að sýna það sjálf að við séum manneskjur til að leysa málin friðsamlega.

HUGSUM OKKUR FRIÐ! 

 


"Hjálpum þeim" ! Global energy aid. GEA.

Úff, þeir stálu þá Orkuveitunni til hjálparstarfs. Það hlaut að liggja eitthvað göfugt að baki þessu. Manni létti auðvitað mjög í lok viðtalsins við Bjarna Ármanns hjá henni Evu í gærkvöldi... Enginn ávinningur fyrir íslenskt samfélag...en við getum huggað okkur við að vera nú allt í einu óforvarendis farin að taka þátt í uppbyggingu orkuveitu fyrir Afríku. Gott og vel. Mig langar þá að vita hvaða verkefni nákvæmlega - en það má ekki segja. Er það?

Robin Hood energies RHE, gæti nýja projectið einnig heitið.

Eins og það hefur verið gaman að fylgjast með þessum afreksmönnum öllum belgjast út og þeysast um víðan völl þá er þetta farið að minna á ofvirkni og fíkilshegðum. Engar reglur og rammar halda.

Þarf ekki að fara að kenna viðskiptasiðferði í barnaskóla. Taka bara á þessu starx. Eru það kannski bara alltaf þessir óþekku sem ná lengst fyrir rest. Maður er bara svo aldeilis hissa, svo er verið að taka hart á einhverjum lásý búðaþjófum frá útlöndum... Nei ég segi nú bara svona. Það er auðvitað ekki sama þjófnaður og ÞJÓFNAÐUR.

 

pr004-1[1]

 


Kæri borgarstjóri, þetta var nú ljóta klúðrið.

Kæri Vilhjálmur. Mikið er leiðinlegt að horfa upp á fólk í þinni stöðu fara svona illa að ráði sínu. Má maður spyrja hvers vegna undirskrift þín var nauðsynlega á þessum tímapunkti með þessum stutta fyrirvara? Bara svona hreinskilnislega. Ég skildi ekki alveg svörin þarna í viðtalinu í sjónvarpinu í gær. Þú sagðir að "Þér hefði verið falið að ganga frá þessu". Var það þá sem sé meirihlutinn í borgarstjórn sem það gerði? "það er nú einu sinni í þessum heimi að hlutirnir þurfa að ganga hratt fyrir sig". Jú, jú en hvað hefði raunverulega gerst ef þið hefðuð farið að lögum? Hótaði einhver að draga frjármagn sitt til baka eða...? Nei, maður er bara forvitinn. Mér finnst voða leiðinlegt að þurfa að segja þér að maður horfir með aðdáun á Svandísi Svarvars. Ég er ansi hrædd um að þetta mál eigi eftir að draga dilk á eftir sér og það er eitthvað svo- ekki gott energy- í krigum þetta. Með kærri kveðju, Sigrún Vala, orkukaupandi og kjósandi í Reykjavík.

Elsku mamma III: Húsmóðir hefnir sín.

Jæja mamma. Takk fyrir síðast. Þú varst sem sé búin að lesa bloggið og hafðir ekkert hringt. Hefndaraðgerðin kom mér í opna skjöldu sem sennilega kitlar enn innri hláturtaugar þínar. Innlit mitt í fyrrakvöld var einhvern veginn á þessa leið:

"Hún bar í hana smásteik og brúna sósu, með lúmskum viprum í kringum munnvikin. Eitthvað sérstakt eftirvæntingar og gleðiblik var yfir augunum. Móðurinni lá ekkert á, enda er mjög nauðsynlegt að þegar hefndaraðgerð er framkvæmd, sé tímasetningin rétt. Dóttirin átti sér einskis ills von og malaði gleðilega um gæði steikurinnar, síðustu Spaugstofu og færð á vegum. Móðirin beið. "Eigum við ekki að fá okkur köku og te á eftir matinn"? þú mátt kikja aðeins í blöðin þarna á sófaborðinu." Lestur um innstu leyndarmál Zetu Jones, virkaði vel, afslappandi og afar cosý í hægindastólnum. Móðirin: "Annars er hérna ein bók, sem ég tók á bókasafninu. Hún minnti mig eitthvað svo á þig, þ.e tillinn" Ræsking; " Ja, sko titillinn, þú fyrirgefur"

-HUGSJÓNADRUSLAN-

Já, það var sem sé titillinn á bókinni, sem minnti hana á mig. Hún er örugglega enn að hlægja.

FF03[1]
Njóttu blómann  

 


Elsku mamma II, Með þökk fyrir gefandi hláturköst.

Það er samt þannnig, með hana mömmu að í hádramatík hennar felst svo dásamlegur húmor. Okkur systrum hefur oft dottið í hug að skrá sögurnar. Við grátum úr hlátri og það besta við allt saman er það að mamma getur grátið með okkur úr hlátri... yfir eigin fyndni.

Hér kemur ein "Mömmu-saga"

Hneyksli!

Kvöld nokkurt eigi alls fyrir löngu var ég stödd hjá Ragnheiði vinkonu minni, heilara og miðli uppi í Grafarvogi. Eftir góða máltíð sátum við yfir kertaljósi og vorum djúpt sokknar í umræðu um andleg málefni, tilgang lífsins og hvað maður gæti nú lært að hinum og þessum skakkaföllum lífsins. Þá hringir gsm í minni tösku. Ég svara.

Eins og rödd að handan, úr órafjarlægð eftir dúk og disk heyrist;

"Sigrún mín"

"Já þetta er ég"  (Hélt sem snöggvast að ekki væri allt með felldu).

"Sástu þáttinn áðan"

" Nei, ég er í matarboði, hvað var það?

"Örlagadagurinn" (Með örlagaþrunginni áherlsu, lengst ofan úr maga). "Ég get sagt þér það, að þetta var sá yfirborðslegasti þáttur sem ég hef nokkurn tíma séð. Þekktir þú ekki hana xxx"

"Jú, ég man eftir henni"

"Veistu það Sigrún, þetta var hræðilegt, hræðilegt!!!

"Nú"

"Konan bókstaflega LJÓMAÐI AF HAMINGJU, þrátt fyrir öll þessi áföll sem yfir hana hafa dunið"

Þetta innslag kom eins og himnasending þarna við kertaljósið ég fékk óstöðvandi hláturkast. þegar ég gat losks útskýrt málið fyrir gestgjafanum stóð ekki á hláturtárunum. Allar okkar áhyggjur fuku út í veður og vind.

Já , sem sé takk enn og aftur mútter.

Hlátur léttir lund "Angles fly because they take it light"

 

 

 


Elsku mamma, það er "Allt í besta lagi"!

Hún mamma er haldin áhyggjufíkn. Ég er alveg með það á hreinu. Ekki það, að maður hafi ekki dottið í það með henni. Eftir löng og djúp samtöl um vini, vandamenn, þjóðfélagið og guð má vita hvað þá endum við símtalið, standandi á öndinni yfir þessu öllu saman. Þótt samtalið endi oftar en ekki á þessum orðum "Jæja, þetta hlýtur nú allt að fara vel", þá situr eftir tilfinningin um að allt sé að fara norður og niður.

Í gærkvöldi varð hins vegar snöggur endir á samtali sem annars byrjaði bara vel, þ.e. á jákvæðu spjalli. Þegar ég heyrði að nú myndi ballið byrja, ákvað ég að snúa til baka og taka ekki "áhyggjusopann". Mútta varð auðvitað svekkt og kvaddi snögglega. "Jæja, elskan mín , þú hefur það þá bara gott" og ekki örgrannt á því að raddblærinn bæri með sér... "þú ættir nú bara að skammast þín"...

 Mig langar til að vita hvort það virkar að skipta um hugsun. Um daginn hitti ég kunningjakonu í bakaríinu... já það er aðalstaðurinn í dag.  - Á milli þess sem við báðum um vínabrauð og karamelluköku, þá ræddum við - mátt bænarinnar - "Bænin virkar" ; sagði hún , "hún virkar vegna ENDURTEKNINGARINNAR".  "Ef maður er búinn að eyða hálfir æfinni í það að endurtaka sífellt við sjálfan sig  hvað allt sé ómögulegt, þá getur maður alveg eins endurtekið við sig að "allt sé í besta lagi".

Svo mútta, næst þegar við heyrumst í símann, þá tölum við bara um hvað allt sé frábært. Hvað þú eigir yndislegar dætur, sem eiga dásamlega mömmu, sem á undursamlega tengdasyni (fyrrverandi og núverandi), sem hafa gefið barnabörn, sem bæta heiminn sem... osfrv. Eða bara hvað Esjan sé falleg.

the good picture STANO TUTTI BENE!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband