Konur í krúttlegum búðaleik!

Já það er þá þannig sem við lítum á þetta, brölt allt saman.

Við kunnum bara alls ekki við að græða peninga. Já það lifir lengi eðlið úr aldingarðinum. Það er auðvitað skammarlegt að vera ríkur.

Þetta lága hlutfall af konum í hópi frumkvöðla skýrist nú víst eitthvað líka af nægri vinnu og skárri launum. Minni hvatning til að hefja eigin rekstur.

Annars er þessi umræða svo flókin og margbreytileg að efni er í stóra rannsókn.

Ég þekki margar frábærar konur með eigin rekstur á ýmsum stigum. Ég efast þó um að allar þeirra líti á sig sem frumkvöðla. Sem þær þó hljóta að vera. Kannski þurfum við að skilgreina okkur upp á nýtt í þessu samhengi og taka stöðuna frá því.

Fagna allri umræðu um þessi  mál.

Eru til einhverjar reynslusögur í einni bók?

Annars vill Rannveig Rist ekkert krúttlegt álver. Skil hana vel. Vildi bara að hún væri að stýra öðruvísi fyrirtæki.

Ekki meira að sinni ef þetta kemst af stað . Einhver draugagangur á síðunni. Kannski sem betur fer.

 


Hvað er athugavert við lopapeysu?

Fátt er skelfilegra en að sjá hversu fullorðinn og vel menntaður einstaklingur getur haft barnalega skoðun á einu stærsta hagsmumamáli heimsbyggðarinnar í dag, umhverfismálum. Hér vitna ég í pistil Ómars Valdimarssonar frá 22.mars. á þessu annars ágæta Moggabloggi.

það er svo hrikalega gamaldags að ræða eins alvarlegt mál á svona hallærislegum nótum eins og að tala um lopapeysubandalag og spyrða skoðanir manna á umhverfismálum við aðrar skoðanir svo sem eins og það hvort eðlilegt sé að fá að kaupa sér bjór í matvöruverslun.

Umhverfismál dagsins í dag snúast engan veginn um forræðishyggju. Umhverfismál eru þau mál sem heimsbyggðin öll verður að taka á - NÚNA - Hvers vegna þarf að vera samasem merki á milli þess að  ræða umhverfismál og vilja þar af leiðandi stoppa hjól efnahagslífsins? Ég get bara alls ekki séð neitt samhengi þar á milli. Það eru til jafnmargar leiðir og við viljum fara. Við hugsum, sköpum og endursköpum. Hugsunin þarf að vera stór, nútímaleg og framsækin.

Sem betur fer er nú frekar í tísku í dag að vera umhverfisvænn, en fyrir þann sem ekki veit er heimuinn stærri en Ísland og hugir manna um víða veröld hafa opnast fyrir þessari nýju bylgju.Til marks um það er t.d. auking í sölu á umhverfisvænum vörum. Málsmetandi menn ræða nauðsyn sjálbærrar þróunar o.s.frv.

Hér á Íslandinu góða hefur sem betur fer verið blásð í lúðra til að vekja okkur upp og þetta með lopapeysuna... Hver sá íslendingur sem hefur ekki einhvern tíma átt eina slíka, rétti upp hönd. Vel að merkja þá hefur sú góða flík einmitt verið endurhönnuð af ungum íslenskum hönnuðum undanfarið við góðar undirtektir ... hver hefur ekki átt 66gráður norður flík, sem nú er orðið flott fyrirtæki í útrás... við eigum nóg af hugviti hér . Alveg fullt. Ef bjór fengist í matvörubúðinni myndi ég kaupa hann þar, helst vildi ég hafa hann lífrænan eða þennan sem er framleiddur í bjórverksmiðjunni á Dalvík (var það ekki annars þar)?

Góðar stundir.

 

 

 

 


Með bakverk á Ítalíu

Það er fátt dásamlegra en að búa i hjarta miðbæjarins. Skiptir einu í hvað átt gengið er frá útidyrunum ávallt er eitthvað krassandi í nánd. Sé beygt til hægri er það Hallgrímskirkja, Vitabarinn, La Vida, ...beint af augum gæti verið Hótel  Óðisnvé, Krambúðin, Garðurinn, Á Næstu grösum,... til vinstri Kramhúsið , Yggdrasill , Bernhöftsbakarí og svo í framhadi af því ... Kaffi Hljómalind, Mál og Menning og svo mætti lengi telja.

Höfuðstöðvar hjartans eru þó auðvitað Italia, restaurant fromidable. ..Þangað lá leiðin í gærkveldi án fyrirvara og alfarið stjórnað af ómótsæðilegri innri þrá. Spagetti Carbonara, Spagetti Carbonara varð æ háværari krafa , líkamleg og andleg. Svo eins og í leiðslu klæddi ég mig í kápuna og hélt sem leið lá , niður á við ... í nokkrar mínútur. Niðurringd með úfið hár stóð ég í dyrunum og bað um borð. Hann leit á mig eigandinn og reyndi að vera eðlilegur., "Etu bara ein", sagði hann svo. "Já , sagði ég, bara ein" hann leit á mig aftur og mig grunaði að hann væri farin að kannast við þessa konu. Ég viðurkenni sem sé að ég hef gert þetta áður. Hann bauð mér sæti á sama bás og síðast og ég hugsaði sem snöggvast ,að þeir ættu að skíra básinn í höfuðið á mér, eða allavega réttinum.

Létta ítalska tónlistin, ilmur í lofti og hlátrasköll. Oh, ég fann strax hvernig linaðist á öllum vetrabólgnum vöðvum.  Rétturinn framborinn fljótt og örugglega í fagurri leirskál, glas af rauðvíni hússins , það er fátt sem toppar þetta. Þegar brosandi þjónustustúlkan gekk fram hjá og spurði hvort ekki væri all í lagi hjá mér, var svarið sem hún fékk einhvers konar uml úr fullum munni og spagetti út um allt. Hún kom ekki aftur,... sem sé, en gjóaði augunum öðru hvoru að borðinu þegar hún gekk framhjá.

Máltíðin var fullkomin, orkurík og aðlaðandi. Ég greiddi reikninginn, brosti til strákanna sem voru að skipta pizzum í óðaönn á milli sín og hugsaði hlýlega til stelpnann sem voru að plana kampavínsboðið... og gekk hratt þessa fáu metra heim , núna uppávið. Ég mætti þjóðskáldinu Megasi á heimleiðinni , eins og oft ber við. Stundum sést undir hælana á Björgólfi Thor í næsta nágrenni og Dag Eggertsson sé ég daglega, en hann er alltaf að tala í síma...

Södd og sæl var konan sem lagðist til hvílu þetta kvöld og ég get svarið að mun léttar var yfir axlasvæðinu. Hins vegar er mjóbakið eftir svo ég neyðist til að fara aðra ferð...

 

 

 

 

 

 


Kofi Annam á konurassi.

Í október sl., varð ég þess heiðurs aðnjótandi að fá að taka þátt í Heimsþingi kvenna, sem haldið var í Ljubljana í Slóveníu. Við vorum fimm héðan sem tókum þátt, en þingið er árlegur viðburður og gert út af FCEM, sem eru Alþjóðasamtök kvenna í atvinnurekstri (Eða, "The worldwide network of women business owners"). því er skemmst frá að segja, að þetta var ævintýri hið mesta fyrir mig, enda í fyrsta sinn sem ég tek þátt í starfi á alþjóðavettvangi með svo áhrifamiklum konum. En það eru þær.

Þarna voru sem sé samankomnar konur alls staðar að úr heiminum, til að sýna sig og sjá aðrar.Fræðast og hleypa kappi í kinn... Það var mjög ánægjulegt að sannreyna að þarna fara samtök kvenna með mikinn metnað. Yfirskrift ráðstefunnar var "The future belongs to the Enterprising" Skyldi það satt reynast?

Við vorum nú ekki keyrðar um í Limosinum, en augljóst var að þinginu hafði verið gert hátt undir höfði í borginni, en formaður samtakanna í Slóveníu, Marta Turk sá um alla skipulagningu. þar sem hún situr einnig í borgaráði Ljubljana, þá hefur hún augljólega viljað gera atburði þessum hátt undir höfði fyrir borgina.

Hver Galadinnerinn rak annan eftir þingsetur, kynningar og fræðsluerindi. Í einum þeirra ákváðum við, þær íslensku, að hætta að hanga hver utan í annarri og skipta okkur á borðin. Ég settist til borðs með hópi afrískra kvenna. Þær voru allar stórar og stæltar. Þær töluðu litla ensku og ég litla frönsku. Þó leið okkur vel saman og fundum fljótt út að við voru allar bara "usual girls". Yfir matnum duttu þær í hrífandi samtal og töluðu í kross og kór á frönsku. Ég hætti að reyna að fylgjast með og borðaði matinn þegjandi. Þegar kom hlé á þessum hraðvirku samræðum vogaði ég mér að spyrjast fyrir um umræðuefnið. Jú það voru forsetakosningarnar í þeirra landi á næstunni Cameroon, eða Chad ... Þær voru orðnar sammála um að það væri sama hver myndi vinna. Það gilti einu að ófriður yrði í landinu.

Daginn eftir urðum við samferða fyrir tilviljun í lítilli rútu heim af sýningunni. Aðeins ég og svo þær, auk bílstjórans frá Ljubljana. Ég hafði tekið eftir því að mikið var býsnast yfir þessum Afrísku konum þær væru svo fyrirferðamiklar og sjálfstæðar gerðu bara það sem þeim sýndist... Ja tja. Ég hafði keypt af þeim sandala sem ég skartaði og armband með furðulegum tönnum á. Þær flissuðu mikið yfir þessu og sögðu að armbandið myndi færa mér lukku. Ég spurði þær um Afríku, en þær fóru í vörn. "What you don´t like Africa"? þetta svar kom í opna skjöldu. Jú vissulega, ég hef aldrei komið til Afríku en finnst það mjög heillandi tilhugsun. Hvers vegna skyldu þessar Afrísku konur hafa minnimáttarkennd fyrir landi sínu og þjóð? Ég er enn að pæla.

Það þótti mikill heiður fyrir Afríku að fá Francois Foning kosna sem forseta FCEM. Enda konan stór yst sem innst. Það var augljóst að hún bar hag Afríku og afrískra kvenna mjög fyrir brjósti. Hún er góð vinkona Kofi Annams og það hlýtur að vera fengur af slíkum vin. Enda hafa afríkar konur sýnt honum svart á hvítu sína virðinug með því að láta vefa efni með mynd af honum og svo sauma þær kjóla úr því.

Francois Foning vill heiður Afríku sem mestan og konurnar þrá að vera séðar og heyrðar.

Við viljum heiður Evrópu sem mestan og finnst Evrópa gleymd.

Hvernig endar þetta allt saman...

Á flugvellinum á leiðinni heim, hitti ég aftur þessar Afrísku vinkonur mínar. þær voru á leiðinni til Parísar og svo þaðan til CHAD.  Allt í einu fannst mér Afríka svo nálægt.Kofi Annam á konurassi 

 

 


George, Katrin og Ómar Ragnarsson

Á dögum TEHÚSSINS, kynntist ég ógrynni af fólki, sem ég hef enn sumt samskipti við. Einn þeirra er breski herflugmaðurinn úr seinni heimsstyrjöldinni, George. George er níræður. Hann er bandarískur ríkisborgari, en þráir það eitt að eyða ellinni á Íslandi. Vonandi verður eitthvað eftir af ellinni fyrir hann að eyða hér. Hann keypti sér hús, gegnt Tehúsinu við Frakkastíginn. Alltaf þegar hann var á landinu var hann að dytta að húsinu og hjóp margar ferðir niður í Brynju til að kaupa það sem vantaði. Í lok dags settist hann iðulega hjá mér til að drekka sitt te og þá sagði hann mér gjarna sögur.

Áður en saga dagsins var látin fjúka þurfti hann að blása út með ótta sinn við bandarísk yfirvöld. Hann sagði ástandið í landinu hörmulegt. að símarnir væru hleraðir og almenningur væri beinlínis skelfingu lostinn yfir utaríkisstefnunni. Í það minnsta það fólk sem hann þekkti. Hann hafði sest þar að vegna konunnar sinnar, sem dó fyrir nokkrum árum. Andlit hans ljómaði alltaf þegar hann talaði um hana.

Svo fór hann að lýsa ást sinni á flugvélum. Spitfire held ég að þær heiti, en hann hafði bæði smíðað þær og flogið þeim. Einnig hafði hann látið sprengjur falla úr flugvél á óvininn. Ég staðfesti að hann fékk tár í augnhvarmana þegar hann lýsti því og sagðist alltaf hafa vitað að þarna væri hann að gera fjölskyldur föðurlausar. "But that was the war", sagði hann svo alltaf eins og til að sætta sig við orðinn hlut. George vann líka á skrifstofu fyrir andspyrnuhreyfinguna þar sem gerðar voru rannsóknir og búnir til alls kyns furðulegir hlutir til að koma böndum á óvininn. Þeir smíðuðu hluti sem áttu að granda Hitler, en eins og hann sagði;"Hitler lifði af fimm tilraunir..."

George kom alltaf í heimsókn með vini sína, sem allir vildu heimsækja Ísland. Ein þeirra var Katrin,bandarísk listakona. Katrin fékk bíltúr um Bláfjöll og svo Svartfugl og humar á Hafinu Bláa. Á leiðinni lýsti hún ótta sínum við bandarísk stjórnvöld og því sem þau eru að gera í alþjóðamálum. Óttinn var ekkrt plat, hann var raunverulegur.

Síðast þegar ér hitti George í fyrrasumar bauð hann vinum til matar á Indian Mango, gegnt húsinu sínu við Frakkastíginn. Við fórum upp til að sækja hann og þar sá ég blað á borðinu hjá honum með mynd af Ómari Ragnarssyni. "Þennan mann hefur mig alltaf langað til að kynna fyrir þér"; sagði ég. Já, sagði George, skrítið ég er búinn að geyma þetta blað því það var eitthvað við hann sem kallaði á mig...

Við fórum í matinn og ég var með merki Framtíðarlandsins í jakkanum. Þetta var skömmu eftir 17.júní og ég sótti stofnfundinn samviskusamlega. George hreyfst mjög af merkinu og ég útskýrði fyrir honum málstaðinn. Hann varð einn meira imponeraður.

Ég reyndi að ná í Ómar Ragnarsson, án árangurs, en nú er merkið sem ég keypti á stofnfundi Framtíðarlandsis í eigu fyrrverandi herflugmanns úr síðari heimsstyrjöldinni....

 

 

 


Framtíðarlandið - já takk!

Er búin að skrifa undir sáttmálann og hef þegar beiðið einn þingmann um að gerast grænn.

Sýnist nú að hún sé ennþá grá, enda háttsett í ríkisstjórninni og gæti því verið erfitt að kúvenda si svona. En kannski ef fleiri biðja hana...

Kæru forsvarsmenn framtíðarlandsins, hjartans þakkir fyrir framtak ykkar.


Keflavík og Cowboy junkies

Ég á góða vinkonu sem býr í Keflavík, eða öllu heldur Innri Njarðvík svo allt sé rétt. Heimamenn kalla svæðið reyndar Nýfundnaland vegna ofgnóttar nýbygginga sem rísa þar hver af annarri. Í gær sótti hún mig í miðbæ Reykjavíkur og við ákváðum að hafa eitt af okkar ágætu gnægtarboðum í nýju og flottu íbúðinn hennar í Nýfundnalandi. Við erum orðnar snillingar í þessu og fer þetta yfirleytt þannig fram að ég ákveð hvað skal snæða, en hún eldar á meðan ég ligg með tærnar upp í loft í hinum hrikalega þægilega og glænýja sófa og les nýjusut magasín.

Að þessu sinni var það Hús og Hýbíli sem skartaði myndum af yfirgefnu byggingum uppi á velli. Sem heimamanneskja hefur vinkona mín auðvitað ákveðnar skoðanir á því hvað beri að gera við þetta allt saman og sumar hverjar mjög góðar. Við sjáum hverju fram vindur og hvort einhver þeirra hugmynda fær brautargengi. Ég gat þó ekki varist hryllingnum sem um mig fór við að skoða þessar myndir og segji bara aumingja fólkið sem þurfti að búa þarna. Gott fyrir þau að vera laus undan þeirri ánauð.

Undir borðum ómaði á lægri nótum þáttur Jóns Ólafssonar, en hann hefur fylgt okkur í þessum intímu gnægtarboðum og vorum við sammála um að við værum ekki alveg búnar að skilgreina hans þátt í boðinu. Umræðan fór samt fljótt í hæstu hæðir eins og vanalega og frá flugvallarsvæðinu vorum við komnar í Evrópusambandið. Vinkona mín er svo heitur Evrópusinni að mér varð um og ó. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tókst henni ekki að sannfæra mig. Ég hef ekki enn heyrt nein þau rök sem geta sannfært mig. Við komumst að þeirri niðurstöðu að ég væri Jónas Hallgrímsson á meðan hún væri svona.... Sigurður Breiðfjörð.

Eftir að hafa hlustað á Eivour Páls, gamla Krákudiskinn, tók Paolo Conti við. Að lokum var komið að Cowboy Junkies, sem hlaut að vera viðeigandi... okkur fannst þetta heldur blúsað og stoppuðum okkur af við að fara næst í Sálumessu Mosarts.   Næst tökum við þetta bara alla leið og förum á RÁNA.

Ég hafði sárt við lagt að fara í göngutúr með henni og hundinum í morgun en þegar hún vakti mig og ég heryði vindinn gnauða úti , ískaldan ... hætti ég við samstundis, en beið eftir að þau kæmu úr göngutúrnum til að hita handa mér kaffi. Óskin rættist. Gönguferðin  mín bíður betra veðurs en til að leiðrétta allan misskilning  þá er mjög gott að fara í göngutúr á Reykjanesinu og höfum við farið í þá nokkra og heimsótt vitana báða. Garðskagavita og Reykjanesvita. Og fyrir þá sem ekki eru upplýstir er þessi dásamlega kaffistofa á Garðskagavita. Mátulegur bíltúr úr Reykjavík og gaman að ganga og ekki síst með hundinn.

Á leiðinni heim til Reykjvíkur göntuðumst við enn með Evrópumál kosti og galla. Komumst samt að þeirri lýðræðislegu niðurstöðu að við myndum halda áfram að vera bestu vinir. þótt svo að ég myndi að öllum líkindum ekki kjósa það sama og hún núna næst... að því tilskyldu að ég kysi ekki tvo ákveðna flokka og einn ákveðinn mann. Sem betur fer verð nokkrir flokkar í boði...sjúkk.

 

 

 


Vinir Vestfjarða

Ég get vel skrifað undir það að vera vinur Vestfjarða.  Eftir að hafa ferðast um bloggheimana nú um nokkurra vikna skeið og lesið daglega pistlana hennar Ólínu, rifjast upp dagar mínir í Menntaskólanum á Ísafirði. Eins og alþjóð veit, er þessi gamla skólasystir mín sannkölluð valkyrja og hefur aldrei legið á skoðunum sínum. Minnist ég þess einmitt þegar við sátum á svölunum heima hjá henni og brutum saman taubleyjur, en þá hafði hún ung að árum eignast sinn fyrsta son. Það þýddi lítið að bulla í eyru Óínu. Ung sem Ólína, eignaðist ég einnig mitt fyrsta barn, þótt stúlka sú hafi ekki fæðst fyrir vestan, á hún óneitanlega ættir þangað að rekja.  ... er af vestfirskum sjómönnum komin. Ég sé að Júlíus Geirmundsson, er enn við líði og fjöllin óbreytt. Skildi bæjarandin enn vera sá sami. Þetta var í kringum 1977 og til Ísafjarðar streymdi opið og listrænt fólk. Á þessum tíma vour þau hjón Jón Baldvin og Bryndís ráðandi í Menntaskólanum ásamt lista og menningarlífi bæjarins, að sjálfsögðu.

Það hlýtur að vera fengur fyrir bæjarfélag eins og Ísafjörð að fá silgda heimamenn aftur til að rífast og skipta sér af.  Það er raunverulega aldrei nóg skipt sér af og rifist yfir hagsmunamálum. Nú sýnist mér fleira mektarfólk komið vestur og einhvern tíma átti ég , ekki fyir svo löngu síðan samskipti við Soffíu Vagnsdóttur á Bolungarvík sem ekki geftst upp við frumlegar tilraunir til að fjölga í bæjarfélaginu. Það hefur löngum verið sterkt í okkur landanum.

Fyrir nokkrum árum átti ég yndislega viku í sumarhúsi á Galtahrygg (við Mjóafjörð held ég örugglega)Þessi vika er ein eftirminnilegasta sumardvalarvika mín lengi fyrir margra hluta sakir, en meðal annars man ég svo vel  firðina hvern á fætur öðrum í blíðskaparveðri. Alltaf hríslast þó um mann ónot, þegar keyrt er fram hjá eyðibýli. Þau voru nokkur á þessari leið og raunar aðeins  búið í örfáum húsum í hverjum firði fyrir sig. Náttúrufegurðin er þau auðvitað ómótstæðileg, ilmur af lyngi og allri þessari tanduhreinu flóru okkar.

Já ég skil vel að fólk vilji búa á Vestfjörðum og þar líði því vel. Auðvitað er þetta óréttlæti fyrir íbúa í þessari ákveðnu radíuslengd frá höfuðborginni óþolandi. En þó er margt annað mjög jákvætt sem kemur á móti fyrir íbúana .... vonandi. Það verður að vera yin og yang.

Ég stend með íbúum Vestfjarða og óska ykkur góðs gengis í baráttunni, hver veit nema að maður taki hringinn í sumar. Og Soffía! MAGADNAS er mjög frjósemisaukandi.

 

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband